![Fátækt er mikil og glæpir mjög tíðir.](/myndir/gagnasafn/2025/02/08/90293fc9-5575-4658-b3cd-098a1d643349.jpg)
Tilkynningum um kynferðisbrot í garð barna hefur fjölgað mikið á Haítí að undanförnu. Samkvæmt opinberum gögnum hafði í fyrra fjöldi slíkra brota tífaldast á milli ára. Eru það skipulögð glæpasamtök sem bera mesta ábyrgð, en glæpahópar eru taldir stjórna allt að 85 prósentum sumra svæða á eyjunni, þ. á m. höfuðborginni. Sum fórnarlömbin eru einungis átta ára gömul.
Fréttaveita AFP greinir frá því að börnum er ítrekað rænt þar í landi, þau flutt á afvikinn stað og látin ánetjast vímuefnum. Að því loknu eru börnin seld í kynlífsþrælkun. Sum þessara barna lifa ekki meðferðina af.
Glæpatíðni er sögð svo gott sem stjórnlaus á Haítí og voru tilkynnt morð t.a.m. 5.600 talsins í fyrra. Það er mikil fjölgun frá árinu á undan. Flest þessara mála eru enn óleyst.