Valdimar Guðmundsson, einn ástsælasti tónlistarmaður landsins, fagnar fertugsafmæli sínu síðar á árinu en segist óviss hvort stórafmælið verði erfitt skref. „Ég eiginlega veit það ekki enn þá,“ segir Valdimar, sem upplifði þó smá krísu þegar hann varð þrítugur. Hann ræddi við Bolla Má og Þór Bæring um tónlistina, lífið og viðburðaríkt ár fram undan, í Ísland vaknar. Valdimar hefur unnið með ungum röppurum að undanförnu, þar á meðal Issa í laginu Gleyma og Flona sem gaf nýverið út ábreiðu af lagi Valdimars, Yfir borgina. „Það er rosa gaman þegar krakkarnir vilja vinna með gamla manninum mér, sem er að verða fertugur,“ segir hann glettnislega. Hljómsveitin Valdimar verður með tónleika í Gamla bíó 21. febrúar og vinnur að nýju efni – jafnvel plötu á árinu.
Viðtalið við Valdimar er í heild sinni á K100.is.