![](/myndir/gagnasafn/2025/02/08/cb914063-6404-4ac5-bbc4-c4285c094267.jpg)
Fjöldi fólks sótti í gær útför Ellerts B. Schram, fyrrverandi ritstjóra og alþingismanns sem nær alla sína tíð tengdist knattspyrnu órofa böndum gegnum Knattspyrnufélag Reykjavíkur, KR, þar sem hjarta Ellerts sló, svo sem sjá mátti af félagsstörfum hans og broti af ritstörfum hans – ritstjórn KR-blaðsins og bókarinnar KR – Fyrstu hundrað árin.
Höskuldur Kári, sonur Ellerts, skrifar í minningargrein að hjarta föður hans hafi alltaf slegið með KR og slæm úrslit varpað skugga á næstu daga á eftir. „Allir við Sörlaskjólið gátu séð hvernig leikurinn fór út frá göngulagi hans á heimleiðinni eftir leik. Léttstígur eða þungur í spori. Fólk þurfti ekkert að fletta upp úrslitunum. En það var alltaf næsti leikur, næsta leiktíð, næsta markmið. Þar voru tækifærin til að gera betur og aldrei gefast upp,“ skrifar Höskuldur um föður sinn, sem varð 85 ára gamall. Ellert lést aðfaranótt 24. janúar.