Keflavík Finnski flugherinn er kominn með fjórar F-18 orrustuþotur á Keflavíkurflugvöll til að sinna loftrýmisgæslu.
Keflavík Finnski flugherinn er kominn með fjórar F-18 orrustuþotur á Keflavíkurflugvöll til að sinna loftrýmisgæslu. — Ljósmynd/AIRCOM-Arnaud Chamberlin

Finnski flugherinn er kominn til Íslands með fjórar F/A-18 Hornet orrustuþotur og 50 liðsmenn, en hlutverk heraflans er að verja lofthelgi Íslands næstu þrjár vikurnar.

Er það í samræmi við varnarþörf landsins á friðartímum. Flugherinn mun vinna náið með Landhelgisgæslu Íslands á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Þetta er í fyrsta sinn sem finnski flugherinn gætir loftrýmis hér á landi frá því að Finnland gekk í Atlantshafsbandalagið (NATO) 4. apríl árið 2023.

„Þátttaka Finnlands í loftrýmisgæslu við Ísland er merkur áfangi sem sýnir hvernig innganga Finnlands og Svíþjóðar í NATO styrkir og dýpkar varnarsamstarf okkar og stuðlar að öryggi landsins,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra þegar tilkynnt var um komu Finnanna. doraosk@mbl.is