Ekki liggur enn fyrir til hvaða úrræða verður gripið eftir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í síðasta mánuði úr gildi leyfi til að breyta JL-húsinu við Hringbraut í búsetuúrræði fyrir hælisleitendur, samkvæmt upplýsingum Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar.
Hún segir málið nú hjá Framkvæmdasýslu ríkisins og eiganda húsnæðisins, í samskiptum við Reykjavíkurborg, og á meðan svo er sé ákveðin biðstaða og framkvæmdir við endurbætur liggi niðri. „Við bíðum bara átekta,“ segir hún.
Þær 60 konur sem hafa búið í húsnæðinu að undanförnu eru þar enn og segist Unnur ekki vita annað en að þær fái að vera þar áfram á meðan þessi mál eru enn í ferli. „Ég hef ekki fengið neinar meldingar um annað, þannig að vonandi fá þær að vera þarna í friði á meðan fundið verður út hvernig þetta endar,“
...