Þrjú verk fyrir píanó og fiðlu eftir John Speight verða frumflutt í sal Tónlistarskóla Garðabæjar kl. 12.15 á morgun. Verkin flytja Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir píanóleikari og Martin Frewer fiðluleikari. Í tilkynningu segir að Speight hafi starfað sem söngvari og kennari eftir að hann fluttist til Íslands árið 1972, auk þess að vera kórstjóri Bessastaðakirkju í 15 ár, og hlotið heiðursviðurkenningu Garðabæjar árið 2023 fyrir ómetanlegt starf í þágu menningar. Aðgangur er ókeypis.