![](/myndir/gagnasafn/2025/02/12/d7d7bad3-36e3-48f0-a7af-336d147d87ec.jpg)
Fjöldi þjóðarleiðtoga kom saman í París í gær og fyrradag til þess að sækja eina stærstu ráðstefnu sem haldin hefur verið til þessa um framtíð gervigreindar.
Varaforseti Bandaríkjanna, JD Vance, ávarpaði ráðstefnuna í gær og varaði hann þar ríki Evrópu við því að setja of mikið regluverk utan um þróun gervigreindar, þar sem það gæti kæft hina nýju tækni í fæðingu. Sagði hann að ríki Evrópu þyrftu að sýna „bjartsýni frekar en ótta“ gagnvart gervigreind.
Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, og Emmanuel Macron Frakklandsforseti voru sameiginlegir gestgjafar ráðstefnunnar og hvöttu þeir báðir ríki heims til þess að setja reglur til þess að tryggja öryggi hinnar nýju tækni. Um 60 ríki undirrituðu yfirlýsingu þess efnis en hvorki Bandaríkin né Bretland rituðu undir.