
Staðan kom upp í efstu deild Íslandsmóts skákfélaga sem lauk fyrir skömmu í Rimaskóla. Sæberg Sigurðsson (2.067) hafði hvítt gegn Arnari Milutin Heiðarssyni (2.094). 54. Dxf6! gxf6 55. d7 Db1 56. d8=D+ Kh7 57. De7+ Kg8 58. De8+ og svartur gafst upp. Það er nóg um að vera í íslensku skáklífi þessa dagana. Skákdeild KR heldur hraðskákmót í kvöld kl. 19.30 og það sama er upp á teningnum hjá TG í Miðgarði. Á morgun heldur Æsir sitt vikulega hraðskákmót í félagsheimili Eldri borgara í Reykjavík og nágrennis í Stangarhyl. Síðar þann dag, eða um kvöldið, heldur TR sitt vikulega þriðjudagsmót. Á miðvikudaginn heldur Skákmót Öðlinga áfram. Degi síðar halda Korpúlfar sitt vikulega mót í Spönginni í Grafarvogi og á fimmtudagskvöld heldur TR sitt vikulega hraðskákmót. Á laugardaginn er svo KR með Árdegismót.