
Fjölniskonur eru einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum í íshokki en þær lögðu Skautafélag Akureyrar í þriðja leik úrslitaeinvígisins í Egilshöllinni í fyrrakvöld, 4:1.
Staðan í einvíginu er 2:1, Fjölni í vil, og getur Grafarvogsliðið tryggt sér titilinn með sigri á Akureyri í fjórða leik liðanna annað kvöld en hann hefst í Skautahöllinni klukkan 19.30.
Hilma Bóel Bergsdóttir, Berglind Leifsdóttir og Elísa Sigfinnsdóttir komu Fjölni í 3:0 í fyrsta leikhluta. Magdalena Sulova minnkaði muninn fyrir SA í byrjun annars leikhluta en Berglind innsiglaði sigur Fjölnis þegar hún skoraði fjórða mark liðsins og sitt annað mark með glæsilegu skoti þremur mínútum fyrir leikslok.