
Norska lögreglan rannsakar nú innbrot og skemmdarverk á lóð sem hýsir m.a. yfirgefna spennustöð skammt utan við Ósló. Allt þykir benda til að hópur fólks hafi með ásetningi valdið skemmdum á vélbúnaði þar sem varð til þess að 50 til 60 tonn af olíu láku út í jarðveg og grunnvatn. Óttast er að mengunin gæti valdið útbreiddara vandamáli, en rannsókn lögreglu og sérfræðinga miðar að því að kortleggja vandann betur og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða, sé þeirra þörf.
Reuters hefur eftir lögreglu í gær að málið sé á grunnstigi, verið sé að afla gagna og leita hugsanlegra vitna. Ekki er vitað hverjir stóðu að verkinu en ólíklegt er talið að olían hafi sloppið út án utanaðkomandi aðstoðar. Á myndinni til hliðar sjást tæknimenn að störfum.