
Árásir Bandaríkjahers á skotmörk tengd Hútum héldu áfram í gærmorgun og voru þá um 60 sagðir fallnir, þ. á m. fimm börn. Loftárásunum er af varnarmálaráðuneytinu bandaríska (Pentagon) lýst sem „öflugum og nákvæmum“ en markmið þeirra er að hafa lamandi áhrif á vígasveitirnar.
Hútar sögðust hafa svarað árásum með eldflaugaárás á herskipaflota Bandaríkjanna, m.a. flugmóðurskipið USS Harry S. Truman. Vestanhafs könnuðust yfirmenn heraflans þó ekki við neinar gagnárásir. Nokkrum drónum hefði þó verið grandað.
Pete Hegseth varnarmálaráðherra segir hersveitir sínar munu halda áfram árásum láti Hútar ekki af ógnandi hegðun sinni sem m.a. hefur skaðleg áhrif á alþjóðlega umferð skipa.