
Alma Guðrún Frímannsdóttir fæddist 28. apríl 1963. Hún lést 3. mars 2025.
Útför Ölmu fór fram 17. mars 2025.
Við Alma höfum verið einstakar vinkonur síðan í fyrsta bekk í Menntaskólanum við Sund árið 1979. Við sátum saman strax frá fyrsta degi og brölluðum margt. Foreldrar Ölmu lánuðu henni ósjaldan fjölskyldubílinn Lödu Sport en afdrep okkar og bekkjarfélaganna var þar sem við systur leigðum í Sigtúninu. Þar var alltaf hist fyrir böll til að blása hárið og setja upp andlit og fara í dressin.
Við skiptumst oft á fötum og ég man sérstaklega eftir rauðu og grænu buxunum og rauða vestinu sem Guðrún mamma Ölmu prjónaði. Svo lá leiðin í Hollywood eða Klúbbinn á föstudögum og í Sigtún á laugardagskvöldum. En stundum nenntum við ekki inn og sátum stilltar í Lödunni fyrir utan Sigtún og horfðum á liðið.
...