
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því í gær að hann myndi tala við Vladimír Pútín Rússlandsforseta símleiðis í dag um stöðuna í Úkraínu og möguleikann á vopnahléi til þrjátíu daga.
Sagði Trump við blaðamenn um borð í Air Force One, forsetaþotu Bandaríkjanna, að hann og Pútín myndu meðal annars ræða „landsvæði“ og orkuver, en auk þess yrði rætt um „skiptingu vissra eigna“ og sagði Trump að mikil vinna hefði farið í að ræða þessa hluti hjá bæði Rússum og Úkraínumönnum.
Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, staðfesti svo síðar um daginn að forsetarnir tveir myndu tala saman, en neitaði að tjá sig frekar um hvaða umræðuefni yrðu tekin fyrir.