
Íshokkí
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Fjölnir er Íslandsmeistari kvenna í íshokkí annað árið í röð og í annað sinn í sögu félagsins eftir sigur gegn SA í fjórða leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins í Skautahöllinni á Akureyri í gær.
Leiknum lauk með naumum sigri Fjölnis, 2:1, en Fjölnir vann fyrsta leik einvígisins örugglega í Egilshöll, 5:0. SA vann annan leikinn naumlega á Akureyri, 2:1, en Fjölnir vann svo 4:1-sigur í þriðja leik liðanna í Egilshöllinni.
Leikurinn í gær fór fjörlega af stað og Hilma Bóel Bergsdóttir kom Fjölni yfir undir lok fyrsta leikhluta. Hún hrifsaði þá pökkinn af leikmanni SA og kom honum í netið en markið var klaufalegt fyrir Akureyringa sem höfðu varist vel fram að þessu.
...