
Söngsveitin Fílharmónía flytur Heimsljós, íslenska sálumessu eftir Tryggva M. Baldvinsson, ásamt hljómsveit í Langholtskirkju laugardaginn 22. mars kl. 16. Um einsöng sjá Hallveig Rúnarsdóttir og Eggert Reginn Kjartansson, konsertmeistari er Sif Tulinius og Magnús Ragnarsson stjórnar. Segir í tilkynningu að verkið, sem taki form sálumessunnar, byggist á völdum þáttum úr samnefndri skáldsögu Halldórs Laxness sem teljist vera ein af perlum íslenskrar bókmenntasögu.