Þau Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild, og Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild, fengu flest atkvæði í rektorskjöri Háskóla Íslands, en niðurstöður þess voru tilkynntar í aðalbyggingu Háskólans undir kvöld í gær. Kjósa þarf aftur á milli þeirra tveggja, þar sem hvorugt þeirra fékk meirihluta atkvæða og fer sú kosning fram í næstu viku. Alls greiddu 6.330 atkvæði af þeim 14.557 manns sem höfðu atkvæðisrétt og var því kosningaþátttaka í heild 43,5%. Magnús Karl hlaut 33,6% atkvæða og Silja Bára 29,3%. Í kjöri voru fimm aðrir, fengu þær Ingibjörg Gunnarsdóttir 13,6% atkvæða og Kolbrún Þ. Pálsdóttir 11,5%. Björn Þorsteinsson fékk 9,3% atkvæða og aðrir minna.