
Sviðsljós
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Allt er miklu einfaldara í dag en áður. Nú þarf fólk bara að finna græna hnappinn á símanum sínum og ýta á play. Má bjóða þér upp á Lady Gaga og Bruno Mars? Nýjustu plötu Bubba? Eða kannski bara eitthvað gamalt með Creedence? Uppáhaldstónlistin er komin í eyrun á nokkrum sekúndum og fyrir þetta borgar maður sama og ekkert.
Spotify er með 675 milljónir hlustenda um heim allan og þeir geta valið úr 100 milljón lögum, 6,5 milljónum hlaðvarpa og 350 þúsund hljóðbókum. Talið er að 84% tekna vegna útgefinnar tónlistar komi frá streymi. Samt er eitthvað stórkostlega skrítið þarna. Listamenn eru óánægðir með sinn hlut af kökunni og þegar kafað er undir yfirborðið kemur í ljós að Spotify er mikil furðuveröld.
...