
Ari Eldjárn uppistandari hefur verið útnefndur bæjarlistamaður Seltjarnarness 2025. Fór athöfnin fram á Bókasafni Seltjarnarness á dögunum og er þetta í 29. sinn sem bæjarlistamaður Seltjarnarness er útnefndur. Segir í tilkynningu að menningarnefnd Seltjarnarness sjái um valið ár hvert og í heiðursathöfninni hafi Þórdís Sigurðardóttir formaður nefndarinnar veitt Ara viðurkenningarskjal ásamt starfsstyrk að upphæð 1.000.000 kr. sem fylgi nafnbótinni. Ari fæddist árið 1981 og hefur uppistand verið hans aðalatvinna frá árinu 2009. Þá hlaut Ari Bjartsýnisverðlaunin 2020, Edduverðlaunin 2021 og var handhafi Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 2024.