
Eitt andartak með þér er yfirskrift sýningar Aldísar Ívarsdóttur sem verður opnuð í Gallerí Gróttu á morgun, föstudag 21. mars, kl. 17. Í tilkynningu kemur fram að Aldís hafi stundað nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, haldið nokkrar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum heima og erlendis.
„Náttúruöflin sem eru stöðugt á hreyfingu og oft með miklum krafti eru innblásturinn að verkum Aldísar. Hún notast við margs konar tækni til að koma litunum á strigann og ólíkar aðferðir gefa mismunandi útkomu sem er oft mjög skemmtileg. Aldís tæmir hugann, hefur engar fyrirframhugmyndir fyrir utan val á litum hverju sinni, hún snýr striganum stöðugt þegar hún er að vinna og lætur verkið þróast og skapa sig sjálft.“ Þá rennur helmingur söluandvirðis af þeim verkum sem seljast til Píeta.