
Myndlistarsýningin Fjöllin, fólkið og vatnið er opnuð í kvöld, föstudaginn 21. mars, kl. 20 í Skemmunni Hvanneyri og mun standa yfir dagana 22.-23. mars frá klukkan 13 til 19. Segir í tilkynningu að þar sýni listamaðurinn Reynir Hauksson málverk sem unnin hafi verið síðustu misseri þar sem efniviðurinn sé umhverfi og mannlíf Borgarfjarðar, landslagsmyndir í bland við portrettmyndir. „Reynir Hauksson hefur getið sér gott orð í gegnum tíðina sem einn helsti túlkandi flamenco- og spænskrar tónlistar á Íslandi en síðustu ár hefur hann einbeitt sér að myndlist í meiri mæli. Hann útskrifaðist frá Madrid Academy of Art sumarið 2024 og er að halda sína fyrstu myndlistarsýningu á Íslandi. Í listmálun sinni fæst Reynir við realisma þar sem landslag Borgarfjarðar og andlitslag Borgfirðinga er dregið fram á einstakan og skapandi hátt.“