„Þetta var ágætis frammistaða,“ sagði Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, í samtali við Morgunblaðið eftir 2:1-tap liðsins gegn Kósovó.
„Við vorum að reyna nýja hluti sem gengu ágætlega inn á milli en svo lentum við í smá brasi með þá líka. Pressan er atriði sem við þurfum að skoða,“ sagði Hákon, sem var óánægður með mörkin tvö sem hann fékk á sig.
„Þetta voru frekar pirrandi mörk að fá á sig. Bæði skotin fara í gengum klofið á varnarmanninum og fyrra markið sem við fáum á okkur kemur eftir fast leikatriði. Við getum ekki fengið þannig mörk á okkur, svo einfalt er það. Við þurfum samt að spila betur, það er klárt mál,“ sagði Hákon.
„Það var margt mjög jákvætt í okkar leik og svo voru líka ákveðnir hlutir sem við þurfum að laga,“ sagði Arnar Gunnlaugsson við Morgunblaðið eftir sinn fyrsta leik sem þjálfari liðsins.
„Það gladdi mig mikið hvað við vorum góðir
...