
Vilhjálmur prins af Wales og ríkisarfi hitti breska heraflann sem staðsettur er í Eistlandi um þessar mundir, en hlutverk hans er að efla eystri varnir Evrópu. Heraflinn telur um 900 manns og starfar undir herstjórn Atlantshafsbandalagsins (NATO).
Heimsókn prinsins er sögð afar táknræn og til marks um vilja Bretlands og NATO um leið til að verja landamæri Evrópu gegn frekari landvinningum Rússlands.
Vilhjálmur var klæddur í herklæði og kynnti sér m.a. aðbúnað og þjálfun bryndrekasveita sem búa yfir drekanum Challenger 2, en hann er talinn einn öflugasti bryndreki heims. Má hér til hliðar sjá prinsinn þar sem hann hefur tekið sér stöðu í sæti bryndrekaforingjans á einum slíkum dreka. Sagði Vilhjálmur menn sína standa vaktina af festu.