
Ný konsertharpa Elísabet Waage hörpuleikari mun spila á hörpuna.
Í tilefni þess að Hof hefur eignast konserthörpu verða sérstakir hörputónleikar haldnir þar á morgun, sunnudaginn 23. mars, klukkan 16. Segir í tilkynningu að tónleikarnir séu til þess gerðir að kynna hljóðfærið forvitnum tónlistaráhugamönnum.
„Orðið Harpa hefur margvíslega merkingu. Harpa er vorið. Harpa er skáldgáfan. Harpa er fagurlega formað hljóðfæri margra strengja. Og nú kemur harpan norður.“ Á tónleikunum leikur Elísabet Waage hörpuleikari ásamt félögum í Sinfóníuhljómsveit Norðurlands en á efnisskránni verður meðal annars Danses sacrée et profane eftir Debussy fyrir hörpu og strengjasveit.