
Í Alicante
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Ísland mætir Kósovó í seinni leik liðanna í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildar karla í fótbolta á Estadio Nueva Condomina-vellinum í Murcia á Spáni á morgun, sunnudag, klukkan 17.
Er um heimaleik Íslands að ræða en leikurinn var færður til Murcia, þar sem ekki var hægt að leika á Íslandi vegna vallarmála. Reiknað er með um 1.000 Íslendingum á leikinn en völlurinn tekur rúmlega 30.000 áhorfendur.
Kósovó vann fyrri leik liðanna á fimmtudagskvöld, 2:1, og verður Ísland því að vinna upp eins marks forskot til að halda sæti sínu í B-deildinni og koma í veg fyrir fall niður í C-deildina.