Mont Pelerin-samtökin eru alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, sem þeir Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman og fleiri stofnuðu árið 1947. Á þingi þeirra í Mexíkóborg 16.-19. mars 2025 kynnti ég nýútkomna bók mína, sem evrópsku íhaldsflokkarnir gáfu nýlega út, Conservative Liberalism, North and South. Var kynningin vel sótt og góður rómur gerður að máli mínu. Sérstaklega fannst áheyrendum merkilegt að heyra um hinn fornnorræna frjálshyggjuarf, sem Snorri Sturluson kom orðum að í Heimskringlu, hugmyndirnar tvær um völd í umboði þinga og réttinn til að afhrópa konunga, ef þeir brutu fornhelg lög.
Mexíkóborg hét Tenochtitlan, þegar Spánverjar komu þangað fyrst haustið 1519, hafði verið stofnuð árið 1325 og var höfuðborg Astekaveldisins. Þar voru stundaðar mannfórnir, þegnarnir kúgaðir hrottalega og strangri stéttaskiptingu haldið uppi. Árið
...