
Árlegt Stórsveitamaraþon fer fram í Flóa, Hörpu, á morgun, sunnudaginn 10. mars, kl. 13-16.30. Segir í tilkynningu að þar muni Stórsveit Reykjavíkur að vanda bjóða til sín öllum stórsveitum landsins, ungum sem öldnum, nemendum sem atvinnumönnum, og leiki hver sveit í u.þ.b. hálfa klukkustund. Þá verði dagskráin fjölbreytt og skemmtileg og gera megi ráð fyrir að flytjendur verði um 140, þeirra á meðal stórsveitir Tónlistarskóla Garðabæjar, Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, MÍT, Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, Íslands og Skólahljómsveitar Vesturbæjar og Miðbæjar. Maraþonið, sem nú er haldið í 29. sinn, er hluti af uppeldis- og kynningarviðleitni Stórsveitar Reykjavíkur. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill á meðan húsrúm leyfir en áhorfendum er frjálst að koma og fara á meðan viðburðurinn stendur yfir.