
Þýðingarrétturinn á Mikilvægu rusli, nýjustu skáldsögu Halldórs Armands Ásgeirssonar, var á dögunum seldur til Þýskalands. Það er alþjóðlegi útgáfurisinn HarperCollins sem tryggði sér réttinn að bókinni, að því er segir í tilkynningu. Þar segir jafnframt að fyrr í ár hafi franski þýðingarrétturinn að bókinni verið seldur til Métailié í París, sem einnig gaf út skáldsögu Halldórs Bróður.
„Ég er bara í skýjunum með þetta. Ég er með sterk tengsl til Þýskalands, Berlín er svolítið mitt annað heimili, svo þetta er eiginlega bara smá „bucket list“-dæmi fyrir mig að koma út á þýsku,“ er haft eftir Halldóri. Í dómi í Morgunblaðinu síðasta haust sagði að Mikilvægt rusl væri „sprenghlægileg og vitur skáldsaga“ sem einkenndist af „frásagnargleði og dansandi leik með tungumálið“.