
Valur varð á laugardag deildabikarmeistari karla í knattspyrnu í fimmta skipti eftir endurkomusigur á Fylki, 3:2, í úrslitaleik í Árbænum. Fylkir komst í 2:0 snemma leiks með mörkum frá Guðmundi Tyrfingssyni og Benedikt Daríusi Garðarssyni áður en Orri Hrafn Kjartansson, sem er alinn upp hjá Fylki, minnkaði muninn fyrir Val. Patrick Pedersen og Sigurður Egill Lárusson skoruðu svo fyrir Val seint í leiknum. Fyrirliðinn Hólmar Örn Eyjólfsson tók við bikarnum að leiknum loknum.
Landsliðskonan Danielle Rodriguez átti enn einn stórleikinn í efstu deild svissneska körfuboltans þegar lið hennar Fribourg tapaði fyrir Nyon, 74:95, í Fribourg á laugardag. Danielle lék 38 mínútur og skoraði 27 stig, tók sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Fribourg er í toppsæti deildarinnar.
...