
Skúli Halldórsson
sh@mbl.is
Fulltrúar Bandaríkjanna og Úkraínu komu saman til fundar í Sádi-Arabíu í gær, til viðræðna um einhvers konar vopnahlé í varnarstríði Úkraínumanna gegn Rússum. Í Washington segjast menn vonast eftir „raunverulegum framförum“ á meðan í Kreml er varað við „erfiðum samningaviðræðum“ og langri leið til friðar.
Forsetinn Donald Trump virðist vilja binda snöggan enda á stríðið og vonast til að viðræðurnar í Ríad, þar sem Bandaríkjamenn ræða við sendinefndir Úkraínu og Rússlands hvora í sínu lagi, komi af stað einhverjum straumhvörfum.
Í fyrstu áttu viðræðurnar að eiga sér stað samhliða, þar sem Bandaríkjamenn myndu bókstaflega ganga á milli sendinefndanna, en úr varð að þær verða hvorar á eftir öðrum.
...