
Yfir 50 þúsund manns eru fallnir í árásum Ísraelsmanna í Palestínu, að sögn talsmanns heilbrigðisráðuneytis Hamas. Þá eru yfir 113 þúsund manns særðir.
Erfitt er að sannreyna upplýsingar um fallna og særða í átökunum. Sameinuðu þjóðirnar segja tölur Hamas þó marktækar en því mótmæla stjórnvöld í Ísrael.
Alls bjuggu um 2,3 milljónir á svæðinu áður en hernaðaraðgerðir Ísraels hófust gegn vígasveitum Hamas. Sé það rétt að 50 þúsund manns séu látnir, þá jafngildir það um 2,1% þjóðarinnar.
Hlé var gert á árásum um stund en þær hófust aftur í síðustu viku. Segir heilbrigðisráðuneyti Hamas nærri 700 manns hafa látist í árásum Ísraelshers síðan þá.
Til hliðar eru tveir sjúkrabílar sem um helgina voru sprengdir á geymslusvæði sjúkraliða.