
— Morgunblaðið/Eggert
Talsvert er um að skipta þurfi um ljósastaura í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum frá borginni er skipt um u.þ.b. 250 ljósastaura á ári, ýmist vegna þess að þeir eru orðnir gamlir og úr sér gengnir eða hafa orðið fyrir skemmdum.
Ekki er óalgengt að staurarnir séu eknir niður og hefur víða mátt sjá dæmi þess í vetur. Ástæður þess eru eðli málsins misjafnar, en væntanlega eru slík óhöpp tíðari í hálku þegar bílar skrika til af þeim sökum.
Kostnaður við efni og vinnu við hvern staur er um það bil 350.000 krónur, en borgin fær síðan hluta hans greiddan til baka frá tryggingafélögum tjónvalda, þegar um slíkt tjón er að ræða. Útlagður kostnaður er því nær 90 milljónir á ári.