
Flokkur fólksins hefur verið sá flokkur sem hefur einna mest barist fyrir verndun og velferð dýra. Matvælastofnun gegnir eftirliti með þessum málaflokki. Alloft birtast sláandi fregnir og myndir af dýraníði og gera má því skóna að það viðgangist meira en fólk heldur. Á þessari stundu vitum við auðvitað ekki neitt um hversu mörg dýr búa við óviðunandi aðstæður.
Þeir sem gerast sekir um dýraníð fá í mesta lagi sekt ef tekst að sanna gjörðir þeirra þótt oft þurfi að aflífa dýr eftir misþyrmingar eða slæman aðbúnað af hálfu eiganda. Þetta er auðvitað með öllu óviðunandi.
Nú hefur atvinnuvegaráðherra óskað eftir því við dómsmálaráðherra að kanna möguleikann á því að Neyðarlínan taki við tilkynningum frá almenningi í gegnum 112 þegar fólk verður vart við dýr í neyð. Það verði síðan Neyðarlínunnar að vinna úr umræddum tilkynningum og koma boðum til eftirlitsaðila.
...