Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Fjarskiptafélögin hér á landi stöðva í hverjum mánuði mikinn fjölda svikasímtala og svikasmáskilaboða í síma (SMS og MMS). Á sex mánaða tímabili á seinasta ári stöðvaði hvert fjarskiptafyrirtæki hér á landi um það bil 100.000 til 150.000 svikasmáskilaboð í síma. Því til viðbótar eru í hverjum mánuði stöðvaðar tilraunir til að senda svikaskeyti fram hjá viðurkenndum lúkningarleiðum fjarskiptafélaganna.
Þetta kemur fram í nýrri samantekt Fjarskiptastofu um svik í fjarskiptum. Hún er gefin út í opnu samráði sem Fjarskiptastofa hefur efnt til um tillögur um samræmdar aðgerðir gegn svikastarfsemi með óumbeðnum símtölum og smáskilaboðum sem beint er að símnotendum svo fækka megi möguleikum óprúttinna aðila til að svíkja fé af eða blekkja almenning hér á landi.
...