
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Talsmenn Evrópusambandsins sögðu í gær að ekki kæmi til greina að aflétta eða breyta refsiaðgerðum sambandsins gegn Rússlandi nema Rússar drægju til baka allt herlið sitt frá Úkraínu án nokkurra skilyrða.
Yfirlýsing sambandsins kom í kjölfar þess að Rússar lýstu því yfir að hlé á átökum á Svartahafi, sem bæði Rússar og Úkraínumenn voru sagðir hafa samþykkt í vikunni, myndi ekki hefjast fyrr en búið væri að aflétta vissum refsiaðgerðum á útflutningsvörur Rússa í landbúnaði.
Vilja Rússar sérstaklega að öllum refsiaðgerðum verði aflétt af búnaðarbankanum Rosselkhozbank, en refsiaðgerðir Evrópusambandsins árið 2022 gerðu það að verkum að bankinn var aftengdur hinu alþjóðlega SWIFT-bankakerfi.
...