
Jón Gunnar Benjamínsson fæddist 27. mars 1975 á Akureyri og ólst upp á Ytri-Tjörnum í Eyjafjarðarsveit. Hann lauk grunnskólagöngu sinni í Hrafnagilsskóla, var einn vetur í MA og síðan í VMA, hóf síðar nám í Leiðsöguskóla Íslands, þaðan sem hann útskrifaðist sem leiðsögumaður vorið 2003.
Frá unga aldri hafði hann mikinn áhuga á leiklist og tók þátt í nokkrum sýningum í Freyvangsleikhúsinu. Hápunkturinn var Kvennaskólaævintýrið eftir Böðvar Guðmundsson, sem valin var áhugaleiksýning ársins 1995 og sýnd í Þjóðleikhúsinu af því tilefni. Lék hann þar sveitapiltinn Steina sem var hugfanginn af kennslukonunni Hrönn. Á hann enda tilveru sína að miklu leyti Kvennaskólanum á Laugalandi að þakka; bæði móðir hans og föðuramma fluttu í gamla Öngulsstaðahreppinn til að kenna við skólann. Haustið 2001 flutti hann til Álaborgar, þar sem hann stundaði matreiðslunám og aflaði sér dýrmætrar reynslu á
...