
Kitty Kovács píanóleikari og Þórdís Gerður Jónsdóttir sellóleikari snúa aftur í Hannesarholt með efnisskrá fyrir selló og píanó frá fyrri hluta 20. aldar á tónleikum í kvöld, fimmtudaginn 27. mars, kl. 20. Segir í tilkynningu að á tónleikunum, sem beri yfirskriftina Fjör og fegurð fyrir selló og píanó, verði fluttar sónötur eftir Sergei Prokofiev og Claude Debussy sem báðar einkennist af léttleika, hljómrænum áhrifum frá dægurtónlist fyrri hluta 20. aldar og jafnræði hljóðfæranna.