
Byggðarráð Borgarbyggðar hefur samþykkt að fara í markvissa yfirferð á rekstri og hagræða eftir föngum eins og nú þarf vegna aukinna útgjalda sem fylgja nýjum kjarasamningi sveitarfélaganna við Kennarasamband Íslands. Áætlað er að bein áhrif samningsins leiði til hækkunar á áætluðum launakostnaði Borgarbyggðar um 123 m.kr. umfram fjárhagsáætlun. Fyrir fram var áætlað að launakostnaður sveitarfélagsins vegna kennara yrði 1.460 m.kr. Að teknu tilliti til áhrifa hækkunar útsvars verður hrein útgjaldaaukning um 105 m.kr.
Rekstur Borgarbyggðar er traustur og skuldastaða góð. Mikil uppbygging stendur nú yfir og munu skuldir sveitarfélagsins hækka af þeim sökum. „Það er því enn mikilvægara en áður að leita leiða til að efla undirliggjandi rekstrarafkomu Borgarbyggðar til lengri tíma,“ segir byggðarráð.