Hæstiréttur hefur þyngt dóm yfir karlmanni sem var dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fyrrverandi stjúpdóttur sinni í fyrra. Hæstiréttur staðfestir dóminn en dæmdi manninn í fimm ára fangelsi.
Maðurinn var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni, dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar, og stórfellt brot í nánu sambandi á árunum 2016 til 2019. Fram kom í ákæru að hann hefði misnotað freklega yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni, traust hennar og trúnað sem stjúpfaðir og á alvarlegan hátt ógnað heilsu og velferð hennar með því að hafa í ótilgreindan fjölda skipta með ólögmætri nauðung haft við hana önnur kynferðismök en samræði auk þess að sýna henni klámmyndir og taka mynd af kynfærum hennar. Með dómi héraðsdóms var maðurinn sýknaður af þeim brotum sem honum voru gefin að sök en með dómi Landsréttar var hann sakfelldur og dæmdur í fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.