
Landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur lagt fram tillögur um fullveldisrétt Íslands yfir landgrunninu á Reykjaneshrygg. Íslenska ríkið þarf að innleiða þessar tillögur í löggjöf landsins og þar með eru gríðarmiklir hagsmunir tryggðir um aldur og ævi. Þar með verða ytri mörk landgrunnsins endanleg og bindandi. Rétt er að ítreka að þetta snýr einvörðungu að sjávarbotninum fyrir utan efnahagslögsöguna. Doktor Bjarni Már Magnússon ræðir þetta mikla hagsmunamál í þætti dagsins. Hann segir algengast, þegar horft er til landgrunns eða sjávarbotns, að verðmæti á borð við olíu eða gas séu drifkrafturinn. Ekki er vitað til þess að slík verðmæti sé að finna á Reykjaneshrygg en þekkt er að þar er jarðhiti. „Þetta er stórmerkilegt mál,“ segir Bjarni.