
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Afkomumál á breiðum grunni voru ofarlega á baugi í umræðum og ályktunum Búnaðarþings sem haldið var í síðustu viku. Tryggja þarf frekara fjármagn til landbúnaðar svo unnt sé að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu til samræmis við landbúnaðarstefnu til ársins 2040, sem samþykkt var á Alþingi á sínum tíma. Í því sambandi minna bændur á að tollvernd skipti sköpum sem hluti af starfsskilyrðum landbúnaðar og efla þurfi eftirlit með innflutningi landbúnaðarvara. Þá þurfi við gerð næsta búvörusamnings við ríkið að yfirfara afkomuþróun í upphafi hvers árs svo hún endurspegli kjör bænda til samræmis við aðrar stéttir. Þeir opinberu fjármunir sem varið sé til landbúnaðar þurfi sömuleiðis að stuðla að aukinni framleiðslu og nýsköpun í sátt við umhverfið.