Fjórðungur af hlutafé í stærstu útgerðarfélögum landsins er í eigu lífeyrissjóða og er samanlagt markaðsvirði þessara bréfa um 97 milljarðar króna. Stærsti hlutur lífeyrissjóða er í Brimi hf. þar sem átta lífeyrissjóðir fara samanlagt með 37,43% af hlutafé félagsins.
Ríkisstjórnin sagði í vikunni við kynningu á frumvarpi er snerist um tvöföldun veiðigjalda að markmiðið væri fyrst og fremst að innheimta aukninguna af stærri og fjársterkum útgerðum. Sex samstæður greiddu um helming innheimtra veiðigjalda á síðasta ári og má því ætla að þunginn af fyrirhugaðri hækkun leggist á þessar sömu samstæður.