Hæstiréttur hefur sýknað Matvælastofnun og Ríkisútvarpið af kröfum Bala ehf. og Geysis-Fjárfestingarfélags ehf. í svokölluðu Brúneggjamáli. Staðfesti hann þar niðurstöðu Landsréttar. Félögin kröfðust viðurkenningar á skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem félagið Brúnegg ehf. taldi sig hafa orðið fyrir vegna umfjöllunar í sjónvarpsþættinum Kastljósi sem sýndur var á sjónvarpsrás Ríkisútvarpsins.
Í þættinum var fjallað um aðbúnað og velferð hæna í varphúsum fyrirtækisins og eftirlit Matvælastofnunar. Bali og Geysir-Fjárfestingarfélag höfðu fengið kröfurnar framseldar frá þrotabúi Brúneggja, að því er segir í dómi Hæstaréttar.