
Sigurður Hannesson
Við lifum á tímum örra breytinga. Öryggismál, viðbúnaður og varnartengd verkefni hafa færst nær okkar daglega lífi nú þegar heimurinn er að taka stakkaskiptum. Mörkin milli borgaralegrar og hernaðartengdrar notkunar tæknilausna hafa orðið óljósari. Þetta kallar á nýja sýn en um leið skapast ný tækifæri. Ísland getur gegnt mikilvægu hlutverki ef við nýtum styrkleika okkar og vinnum saman að því að skapa vettvang fyrir tvíþættar tæknilausnir sem skipta máli – ekki aðeins í viðskiptum, heldur einnig á sviði öryggismála, alþjóðlegra samskipta og samfélagslegs stöðugleika. Á fjölmennri ráðstefnu sem Samtök iðnaðarins héldu í samstarfi við Íslandsstofu og utanríkisráðuneytið var rætt um tækifærin sem í þessu felast og má segja að þarna hafi verið fyrsta ráðstefnan um varnariðnað á Íslandi.