Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Í næsta mánuði verður byrjað að steypa upp nýtt þjóðarsjúkrahús á Landspítalalóðinni. Samið var við byggingarfyrirtækið Eykt um að vinna verkið fyrir tæpa 8,7 milljarða króna og er áætlað að það taki þrjú ár. Enda verður þetta ein stærsta bygging Íslands, um 70.000 fermetrar. Síðan tekur við vinna við innréttingar og annan frágang og áætlað er að taka sjúkrahúsið í notkun árið 2025-2026.

Meðferðarkjarninn, eins og einingin er nefnd, er stærsta einstaka bygging Hringbrautarverkefnisins og mun gegna lykilhlutverki í starfseminni, segir í kynningu á heimasíðu Nýs spítala.

Í meðferðarkjarnanum munu fara fram flóknar og vandasamar aðgerðir, rannsóknir og umönnun sjúklinga þar sem stuðst er við háþróaða tækni og sérhæfða þekkingu. Kröfur um aðbúnað verða sambærilegar og í nýjum sjúkrahúsum í nágrannalöndum okkar.

...