Flugrekstur Icelandair Group er enn með eldsneytisvarnir virkar í bókum sínum en það eru samningar sem gerðir voru fyrir kórónuveirufaraldurinn. Ívar S. Kristinsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs fyrirtækisins, staðfestir þetta og að þetta séu samningar sem fleytt hafi verið inn í framtíðina eftir að faraldurinn setti allan flugrekstur úr skorðum.

Í fjárfestakynningu sem fylgdi nýlegu ársuppgjöri félagsins kemur fram að fyrirtækið geri ráð fyrir að 29% þess eldsneytis sem notað verði á yfirstandandi fjórðungi falli undir þessar varnir og að hlutfallið verði 23% á öðrum ársfjórðungi, en þeir samningar ná yfir kaup á um 20 þúsund tonnum af eldsneyti.

„Þessir samningar festa verðið á þessum hluta í 660 dollurum á tonnið,“ útskýrir Ívar.

Samkvæmt því nýtur Icelandair góðs af samningunum enda tonnið á u.þ.b. 870 dollara um þessar mundir. Munar þar 25%. Ívar segir engar ákvarðanir hafa verið teknar

...