Þór Sigurgeirsson, nýr bæjarstjóri Seltirninga, ræddi á dögunum. stöðuna á Nesinu við blaðamann Morgunblaðsins og vék þar meðal annars að skattamálum, en skattar urðu nokkurt hitamál á Nesinu fyrir síðustu kosningar eftir að vinstri mönnum tókst að véla einn úr meirihluta sjálfstæðismanna með sér í lið til að hækka útsvarið.
Þegar kjósendur fengu tækifæri til að tjá sig kusu þeir áfram lága skatta og höfnuðu skattahækkuninni.
Þór sagði að það yrði tekin pólitísk ákvörðun um að lækka álagningarstuðul vegna fasteignaskatta til að hækkun fasteignamatsins keyrði ekki upp álögurnar á fasteignaeigendur: „Hér á Seltjarnarnesi hefur alltaf verið áherslumál að hafa skatta sem lægsta og frá því verður ekkert vikið nú. Útsvarið fer aftur í 13,7%. Eðlilegt er að fasteignagjöldin hækki einungis í takt við verðlag, þá um 5-6% milli ára, en meira má þetta helst ekki vera. Til slíks er líka alveg svigrúm, því rekstur bæjarins stendur vel.“
...