Ölgerðin hagnaðist um 482 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi félagsins (mars-maí), en hagnaðurinn dregst saman um 50% á milli ára. Tekjur félagsins námu um 11,2 milljörðum króna og jukust aðeins um 2% á milli ára en framlegð nam rúmlega 3,8 milljörðum króna og jókst um 7%.

Í uppgjörstilkynningu frá Ölgerðinni kemur fram að minni hagnaður skýrist af samdrætti í seldum lítrum til hótela, veitingastaða og skyndibitastaða, sem skýrist aðallega af fækkun ferðamanna og minni neyslu. Þá kemur fram að sölu- og markaðskostnaður hafi aukist um 217 milljónir króna á milli ára, eða 32%, sem rekja megi til aukinnar samkeppni á markaði og nýrra viðskiptavina.

Samhliða birtingu uppgjörsins lækkar Ölgerðin afkomuspá sína lítillega fyrir árið, en félagið gerir nú ráð fyrir EBITDA-hagnaði upp á 5,1-5,5 milljarða króna í stað 5,5-5,9 milljarða króna.