Magnús Andrésson fæddist 30. júní 1845 í Núpstúni í Hrunamannahreppi, Árn. Foreldrar hans voru hjónin Andrés Magnússon, f. 1818, d. 1857, og Katrín Eyjólfsdóttir, f. 1820, d. 1911

Magnús Andrésson fæddist 30. júní 1845 í Núpstúni í Hrunamannahreppi, Árn. Foreldrar hans voru hjónin Andrés Magnússon, f. 1818, d. 1857, og Katrín Eyjólfsdóttir, f. 1820, d. 1911.

Magnús lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1875 og guðfræðiprófi frá Prestaskólanum 1877.

Magnús var biskupsskrifari í Reykjavík 1877-1881 og stundaði jafnframt kennslu. Hann varð prestur á Gilsbakka í Hvítársíðu í Borgarfirði 1881, fékk lausn 1918 vegna sjóndepru, en bjó áfram til æviloka á Gilsbakka. Hann var prófastur í Mýraprófastsdæmi 1883-1892 og 1911-1915.

Magnús var lengstum oddviti Hvítársíðuhrepps. Hann hélt jafnan uppi kennslu á heimili sínu og kenndi fjölda pilta undir skóla. Magnús kynntist smáskammtalækningum hjá séra Magnúsi Jónssyni á Grenjaðarstað og stundaði þær alla ævi. Hann var skrifstofustjóri Alþingis 1879, og hafði á hendi um skeið vörslu á bókasafni þingsins. Hann var sýslunefndarmaður 1891-1903.

...