Sveinbjörn Beinteinsson, allsherjargoði, skáld og bóndi, hefði orðið hundrað ára í dag. Sveinbjörn var vinur foreldra minna áður en ég fæddist og eins og hans háttur var þá var hann duglegur að heimsækja vini sína. Því vandist ég því að sjá þennan vingjarnlega, hláturmilda og langskeggjaða mann bera að garði reglulega. Einnig fórum við fjölskyldan stundum í sveitina til hans upp á Dragháls og þar þótti mömmu minni gaman að raka slægjuna á eftir þar sem hann gekk með ljáinn, eins og hún átti minningar um að hafa gert í slætti sem stelpa á Skáleyjum í Breiðafirði. Fengum við hin þar að sjá slátt með gamla laginu.

Sveinbörn sameinaði marga gagnstæða þætti í persónu sinni, til dæmis að vera einrænn og félagslyndur í senn. Hann hugsaði og stundum gjörhugsaði ýmsa hluti, slík hugsun varð tilurð Ásatrúarfélagsins sem hann þurfti að hafa talsvert fyrir að fá samþykkt sem trúfélag á þeim tíma. Þannig á hann í raun ómældan þátt í þeim vinsældum

...