Húsavík. Keppendur og verðlaunahafar að loknu Norðurlandamótinu í riffilskotfimi, Bench Rest.
Húsavík. Keppendur og verðlaunahafar að loknu Norðurlandamótinu í riffilskotfimi, Bench Rest. — Morgunblaðið/Líney

Norðurlandamót í riffilgreininni Bench Rest var haldið á Húsavík um síðustu helgi þar sem keppendur leiddu saman byssur sínar á velli Skotfélags Húsavíkur.

Engir aukvisar mættu á mótið en meðal keppenda voru Svíarnir Stefan Karlsson og Daniel Madsen, einnig Finninn Jari Laulumaa sem er fyrrverandi heimsmeistari í þessari grein skotfimi og varð hann stigahæstur í lok mótsins. Þeir hafa í gegnum tíðina farið víða um heim á slík mót og segja aðstöðuna á Húsavík með þeirri bestu.

Mótsgestir fengu alls kyns veður um helgina og ekki laust við að mótshaldarar hefðu ugg í brjósti í aðdraganda móts en æfingadagar nýttust ekki vegna illviðris. Skjótt skipast þó veður í lofti og á laugardag birti upp með sólskini og fádæma blíðu sem hélst út mótið.

Allt mótshald gekk samkvæmt áætlun en að mörgu þarf að hyggja áður en slíkt mót er haldið, að sögn Gylfa Sigurðssonar hjá Skotfélagi Húsavíkur.

...